top of page

Nánar um viðburði á Varmalandsdögum -
List og Lyst 
(Í stafrófsröð)

Baski

Myndlist

Baski, eða Bjarni Skúli Ketilsson er fæddur á Akranesi árið 1966 en hann er búsettur í Hollandi þar sem hann stundar list sína ásamt öðrum verkefnum

Hæfileikar hans í myndlist komu snemma í ljós og strax í Barnaskóla Akraness sást að drengurinn bjó yfir einhverju sérstöku

Árið 1987 hélt Baski til Noregs þar sem hann stundaði nám við leikmyndahönnun. Á næstu árum sótti hann ýmis námskeið og árið 1994 hóf hann nám við myndlistarakademíu AKI Academie voor beldende kunst í Enschede í Hollandi. Því námi lauk hann með BA gráðu fjórum árum síðar.

Frá þeim tíma hefur Baski verið búsettur í Hollandi ásamt hollenskri eiginkonu sinni og þremur börnum þeirra. Síðar náði Baski sér í réttindi til kennslu í myndlist í Zwolle í Hollandi og hefur jafnframt lokið námi í viðgerðum og hreinsun eldri málverka.

Bjarni hefur haldið margar myndlistarsýningar víða um Evrópu, hannað leikmyndir, unnið að forvörslu og haldið námskeið í myndlist fyrir jafnt eldri sem yngri nemendur. Hann hefur tekið þátt í skólaverkefnum og meðal annars stýrt vinnu barna og unglinga við gerð leikmynda og mósaík verka.

Þrátt fyrir að vera búsettur erlendis hefur Bjarni Skúli haldið tryggð við heimahagana og verið ötull við að rifja upp gamlar minningar frá heimabænum Akranesi í gegnum verk sín. Hann málar mikið af eldri húsum, götum og íbúum Akraness og heldur minningum um mannlífið sem áður var á lífi.

Dagur Bjarnason

Tónlist

Dagur Bjarnason er ungur en efnilegur tónlistarmaður. Hann byrjaði snemma að spila á kontrabassa og hefur bæði lært klassíska og rythmíska tónlist, og bætt við sig rafbassanumn líka. Hann er svo á leið til Berlínar í þriggja ára nám í raftónlist í haust. Tónlistin sem við má búast verður tilraunakennd, spunamikil en melódísk og góð fyrir eyrun.

Elva Hreiðars

Myndlist

Elva Hreiðarsdóttir fæddist í Ólafsvík 1964 og ólst þar upp. Hún stundaði nám við myndmenntadeild Kennaraháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1989. Elva kenndi myndlist í nokkur ár áður en hún fór í Listaháskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2000 úr grafíkdeild. Að auki hefur Elva sótt fjölda námskeiða í myndlist hér á landi og erlendis, þá helst í málun og solarprint. Elva hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum bæði hérlendis og erlendis.
Elva sækir myndefni sitt almennt til náttúrunnar og blandar gjarnan efnum úr henni í myndgerð sína hvort sem hún gerir grafíkplötur eða málverk. Elva býr í Reykjavík og hefur vinnustofu í Gufunesi. Hún kennir við Myndlistaskólann í Reykjavík ásamt því að starfa að hluta úr ári á Snæfellsnesi.

Elva bjó nokkur ár í Borgarnesi og kenndi við Grunnskólann þar.

Fjöllistahópurinn Pontus

Myndlist, tónlist, handverk

Hvað eru tengsl? Tengsl milli fólks, tengsl milli listforma, tengsl okkar við listina. Pontus er fjöllistahópur sem tengist sín á milli fjölskylduböndum, makar og vinir, kennarar, tvíburar, vinna með fólk. Við vinnum með hverju öðru en jafnframt ein. Handverk í tré, taktfastur sláttur handverkfæra. náttúrustemning. Íslenskt grjót malað í duft þannig að það getur orðið aftur að landsslagi listamanns á blaðinu. Seiðandi tónlist sem tekur höndum samann við hendur handverkmannsins og listamannsins sem skrjáfa og og mynda taktföst slög. Er þetta hljóðfæri eða verkfæri? fiðluboginn stríkur sögina og kontrabassin hljómar með. Landslag myndast inní húsinu. Teiknaðar línur draga landið fram. Er það gjörningur að láta teikna sig. Hver er eiginlega áhorfandinn? Listamaðurinn sem fangar andlitið eða sá sem horfir beint framm á allt sem er að gerast meðan hann er fanginn í fyrirsetunni.

Hans Vera

Myndlist

Hans Vera fæddist í Belgíu með blýant í vinstri hendi. Hann flutti til Grindavíkur í blálok '99 en er núna á leiðinni þaðan til Akraness. Blyanturinn er enn í dag mikilvægasta verkfærið sem hann notar, hvort sem það er til að teikna og hanna húsgögn og innréttingar eða teikna portrett af fólki eftir ljósmyndum eða ef fólk vill sitja fyrir. Ef þú hefur 15 minútur aflögu, þá teiknar hann portrett mynd af þér á Varmalandsdögum.  Hans er annar helmingurinn af Sólveig og Hans.

Hljómsveitin Festival

Tónlist og söngur

Hljómsveitin Festival heldur tónleika í Þinghamri laugardagskvöldið 15. júní.  Hljómsveitin spilar sveitalónlist (country) og mun skemmta gestum á milli klukkan 20:00 of 22:00.  Hljómsveitin Festival var stofnuð árið 2008, er nokkuð hefðbundin sveitaballahljómsveit, sem hefur spilað á dansleikjum, árshátíðum, þorrablótum o.þ.h.

Í hljómsveitinni er valinn maður í hverju rúmi.

Fremstur í flokki er hinn geðþekki Reykdælingur Guðjón Guðmundsson frá Brekkukoti, reynsla hans í söng og spili, nær yfir áratugi, og hvergi er slakað á.  Annar gítarleikari er í hljómsveitinni, sá er Sigurgeir Sigmundsson.  Sigurgeir hefur spilað í fjöldamörgum hljómsveitum og spilað umdir á ótal útgáfum fyrir hljómsveitir og tónlistarfólk.  Að margra áliti er Sigurgeir einn besti gítarleikari landsins.  Bassan plokkar svo Brynjar Páll Björnsson, þar er einnig samankomin áratuga reynsla af tónlistarflutningi, eða allt frá því að hann þriggja ára gamall hljóp um götur Ólafsvíkur gargandi gítarsóló á gamlan tennisspaða.  Hljómborðið hamrar svo Birgir Jóhann Birgisson.  Eftir því er tekið hve fumlaus og framúrskarandi hans hljóðfærasláttur er, sem er ekki að undra því maðurinn er snillingur.  Að endingu er það sá sem lemur húðirnar á trommusettinu.  Sigurþór Kristjánsson, er svo sannarlega reynslubolti og stuðbolti og fremstur í flokki þessara göfugu manna, þó hann sé oftast hafður aftast á sviðinu. Hann rekur einnig sitt eigið hljóðver, ásamt því að kunna brauð að baka.  Sissi býr í Borgarnesi.

Hljómsveitin Festival hefur nýlega gefið út nýtt country lag,"allt snýst" það ásamt öðru efni hljómsveitarinnar má finna á helstu streymisveitum (Spotify, Youtube) undir Festival band eða Hljómsveitin Festival.

Hótel Varmaland

Matarlyst

Kokkarnir á veitingastaðnum Calor, munu töfra fram fjögurra rétta kvöldmáltíð á Varmalandsdögum.  Veitingastaðurinn Calor er á efstu hæð Hótels Varmalands, þar töfra matreiðslumennirnir fram dýrindis rétti á hverjum degi.  Þar má finna anda gamla Húsmæðraskólans svífa yfir vötnunum, en skólinn var einmitt í því húsi sem hótel Varmaland er í nú.  Hótel Varmaland tekur við borðapöntunum í síma 419 5000

Ívar Hollanders

Myndlist og Tálgun

Ívar Hollanders elskar að skapa tækifæri fyrir sögur og leik í hverskyns formi sem spretta fram. Hann hefur verið kennari síðastliðinn 10 ár í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum. Þar fyrir utan brallar hann ýmisleg eins og t.d. skúffulist, með sterkar víssanir náttúruna og tengingu okkar við hana. Verkin eru í formi málverka og útsaums. Einnig blundar einhverstaðar innra með honum tónlistarmaður sem fær annaðslagið útrás á mis- hefðbundnum hljóðfærum. Þar fyrir utan líður honum vel í skógi annaðhvort að rækta hann með skóflu og með hendur í moldini eða með grein í hönd, að tálga eithvað fallegt úr því sem að þegar upp er sprottið.

Stuðningsfélagið

Matarlyst

Jón Árni Gylfason er ungur maður sem er í unglingalandsliði Íslands í körfubolta, U16.  Jón Árni býr hjá móður sinni Guðrúnu Helgu Árnadóttur í Borgarnesi. Þau mæðgin hafa ekki í djúpar hirslur að seilast þegar kemur að borga fyrir ferðalög á kappleiki og æfingar hérlendir og erlendis.  En með hagsýni og hjálp frá fjölskyldu og vinum, ásamt og með aukavinnu þeirra beggja, tekst að halda sjó.  Útgjöld sem þau mæðgin þurfa að standa straum af hlaupa á hundruðum þúsunda.  En margt smátt gerir eitt stórt og við vonum að sem flestir komi í Þinghamar, þiggi veitingar og styrki um leið ungan og upprennandi íþróttamann. Veitingar (matur og drykkir) allan daginn á meðan dagskrá er. Posi á staðnum.

Svansý

Myndlist

Svansý, eða Svanheiður Ingimundardóttir, sýnir okkur vatnslitamyndir í Þinghamri.  Svansý er Árnesingur, sem dagaði uppi í Borgarfirði, eftir nám á Bifröst.  Það má segja að Borgarfjörðurinn hafi stuðað hana svo að hún fór hvergi. 

Eins og í Árnessýslunni sækir Svansý innblástur í náttúruna og sveitina og það má glökkt sjá hve sterkum böndum hún er bundin því. Hún heillst af töfrum vatns og lita og hve ólíkt flæði þeirra er eftir gerð pappírsins sem valinn er. Sambýlismaður Svanheiðar er Magnús Guðjónsson rafvirki í Borgarnesi.

Sólveig Þorbergsdóttir

Myndlist, Gjörningar

Sólveig Þorbergsdóttir hefur 25 ára reynslu sem kennari í Waldorfskólanum í Lækjarbotnum, þar sem jafn mikil áhersla er lögð á hug, hjarta og hönd. Hún er listakona sem notar hugmyndarflug fyrst og fremst og elskar að blanda mismunandi listformum saman til að búa til einstaka stemningu með opnum hug, um hvað nú þegar er til á hverjum stað fyrir sig. Svo getur hún alltaf alltaf töfrað eitthvað fram með spuna. Hugsanlega verður tálgað, sungið, spilað á hljóðfæri og mikið hlegið.  Sólveig er annar helmingurinn af Hans og Sólveig.

Tinna Royal

Myndlist, Poplist

Tinna Royal hefur undanfarin ár vakið athygli fyrir fjölbreytt og litrík listaverk, allt frá málverkum til höggmynda, frá lágmyndum til eyrnalokka og jólaskrauts. Hún er innblásin af umbúðum og fortíðarþrá og gerir út frá Akranesi.

„Frá því ég var 15 ára hef ég verið að leika mér í höndunum,“ segir Tinna. „Mamma gabbaði mig út í þetta þegar ég var erfiðastur unglingur, þá búandi á Snæfellsnesi".  Þá sagði hún: „Komdu, förum út í bíl og í Borgarnes að kaupa föndur,“ segir hún. „Ég er eiginlega búin að vera í þessu síðan.“

Tinna elskar plastdót, liti, popplist, kökur og mat og allt endurspeglast þetta í list hennar. Hún hefur á ferlinum fengist við fjölbreyttan efnivið og heillast af fagurfræði umbúða og tíðaranda níunda og tíunda áratugarins

Tungufellsmóri

Tónlist og söngur

Tungufellsmóri, eða öðru nafni Júlíus Hjörleifsson, er borinn og barnfæddur á Tungufelli í Lundarreykjadal.  Hann hefur í gegnum tíðina haft mikinn áhuga á tónlist.  Hann heyrðist semma syngja fullum hálsi Bítlalög í útihúsunum á Tungufelli, milli þess sem hann vatnaði ánum eða hljóp á milli bæja til að æfa millivegalengdarhlaup.  Júlíus hefur samið fjölmörg lög og texta og eitthvað af því hefur komið fyrir sjónir almennings.  Hann gaf út hljómplötuna Spilduljónið árið 1986 og geisladiskinn Aukanætur árið 2009.  Áhugi hans á tónlist er það mikill að hann bjó til einn fremsta tónlistarmann landsins um þessar mundir, Jökul Júlíusson í hljómsveitinni Kaleo. Geri aðrir betur. Tungufellsmóri hefur nú verið uppvakinn og mun skemmta lýðnum sunnudagskvöldið 16.júní.

Ungmennafélag Stafholstungna

Matarlyst

Ungmennafélag Stafholtstungna verður við Grillið í Skóginum.  Skógardísir og álfar frá munu svífa um í skógarlundi á milli skólans og hótelsins.  Staðurinn verður auðfundinn á lykt af nýbökuðu brauði. Og svo er lítill trébátur rétt við innganginn í lundinn.  Báturinn er ættaður úr Breiðfirði en rak á land hjá okkur fyrir nokkrum árum og sinnir nú því hlutverki að hafa ofan af ungum og upprennandi sjómönnum.  Ungmennafélagarnir ætla að bjóða gestum og gangandi að grilla sé brauð á nýlegu útigrilli sem sett var upp fyrir fé úr “Imbusjóði”.  Það er sjóður sem Ingibjörg Daníelsdóttir, fyrrum kennari við Barnaskólann á Varmalandi setti á stofn, til að bæta umhverfi staðarins  Margt óvænt getur gerst við grillið í skóginum.

Örn Árnason og Birgir Jóhann

Tónlist og söngur

Örn Árnason söngvari og leikari og Birgir Jóhann Birgisson píanóleikari skemmta okkur á sunnudagskvöldinu 16. júní      Hríseyingurinn Örn, er okkur öllum kunnur, störf hans í leikhúsi, sjónvarpi, kvikmyndum og söng, eru okkur mjög vel kunn.  Hér er hann með fast land undir fótum í hjarta Borgarfjarðar og dregur hvergi af sér.  Og eftir laugardagskvöldið 15. júní munu allir Borgfirðingar, þekkja Birgi Jóhann, því hann er hljómborðsleikari í hljómsveitinni Festival, sem heldur tónleika á Varmalandsdögum.

Saman munu þeir félagarnir flytja gamalkunn dægurlög meðal annars eftir Sigfús Halldórsson.  Örn syngur og segir sögur á milli laga.

Dagskrá sem hentar öllum á besta aldri.

bottom of page